Aðalskipulag er áætlun sveitarfélags til a.m.k. 12 ára, um þróun landnotkunar, byggðar, byggðarmynsturs og samgöngu- og þjónustukerfa. Áætlunin markar einnig stefnu sveitarstjórnar í umhverfismálum.
Í aðalskipulagi eru afmarkaðir reitir til mismunandi nota, s.s. fyrir íbúðir, útivist, frístundabyggð, þjónustu og atvinnustarfsemi. Sett eru almenn skipulagsákvæði fyrir hvern landnotkunarflokk og sértæk ákvæði fyrir hvern landnotkuanrreit, til nánari útfærslu í deiliskipulagi og við veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa.
Sveitarfélagið Stykkishólmur hefur ákveðið að gera nýtt aðalskipulag fyrir sameinað sveitarfélag á grunni Aðalskipulags Stykkishólms 2002-2022 og Aðalskipulags Helgafellssveitar 2012-2024 en sameining þessara tveggja sveitarfélaga tók gildi í lok maí 2022. Báðar áætlanirnar eru komnar til ára sinna. Því þarf að samræma efnistök í nýju aðalskipulagi og uppfæra skipulagið m.t.t. þeirra breytinga sem hafa orðið í umhverfi og samfélagi á síðustu áratugum. Einnig þarf að líta til stefnu í málaflokkum sveitarfélagsins á grunni þarfa þess og móta markmið og skipulagsákvæði sem stuðla að þeirri stefnu.
Á þessum vef verða sagðar fréttir af endurskoðuninni eftir því sem henni vindur fram. Einnig verða birt gögn sem verða til í vinnuferlinu.
Reiknað er með að mótun nýs aðalskipulags skiptist í fjóra áfanga sem eru:
Verkefnislýsing. Lýsingin lýsir helstu forsendum og áherslum endurskoðunar ásamt nálgun við kynningu, samráð og umhverfismat.
Vinnslutillaga: Frekari greining og drög að stefnu og skipulagsákvæðum.
Auglýsingartillaga: Fullvinnsla tillögu til auglýsingar. 6 vikna athugsemdafrestur.
Lokaafgreiðsla: Úrvinnsla athugasemda, samþykkt og staðfesting nýs aðalskipulags.